Blóm kattartungunnar eru smá og ósjáleg, fjórdeild, í alllöngu axi á stöngulendanum. Krónupípan er ljósgrænleit, hærð; krónufliparnir fjólubláleitir með breiðum himnufaldi. Bikarblöðin eru græn, himnurend. Fræflar eru fjórir með gulum frjóhirzlum. Ein fræva með einum stíl. Aldinið er aflangur baukur, um 2-3 mm langur, opnast með þverrifu. Stöngullinn er aðhærður, blaðlaus. Blöðin eru í stofnhvirfingu, striklaga eða ofurlítið rennulaga, þykk, 3-5 mm breið, 10-20 sm löng, oftast stutthærð en stundum hárlaus.