Blóm giljaflækjunnar eru í
einhliða, leggstuttum, aðeins þriggja til fimm blóma klösum, svipuð að
gerð og hjá umfeðmingi og álíka stór. Bikarinn er gishærður, klukkulaga
með 5 hvassyddum tönnum. Blöðin eru fjöðruð með 5-8 blaðpörum, smáblöðin
mjóegglaga, snubbótt í endann en þó broddydd, gis- og stutthærð,
endasmáblöðin eru ummynduð í vafþræði sem vefjast utan um greinar
nágrannajurta. Stönglarnir eru gáróttir, grannir.
Giljaflækju var fyrst getið frá
Íslandi hjá Babington (1971 og Grönlund (1881), og síðan í 1. útgáfu
Flóru Íslands. Hún er án efa gömul á aðalsvæðinu í Mýrdalnum og
Vestmannaeyjum, gæti verið frá landnámstíð eða fyrr. Tegundin er þekkt
að því að dreifast með manninum, og líklega eru þannig til komnir
fundarstaðir á höfuðborgarsvæðinu og víðar um landið.