Snækrækillinn er örsmá, hárlaus,
fjölær jurt með nokkrum stönglum sem vaxa út frá stofnlægri
blaðhvirfingu. Blómin eru oftast fjórdeild, sjaldnar fimmdeild, 3-4 mm í
þvermál. Krónublöðin eru hvít, mjósporbaugótt, á lengd við bikarblöðin
eða heldur styttri. Bikarblöðin eru um 2-2,5 mm á lengd, egglaga eða
sporbaugótt, venjulega græn með dökkum (rauðfjólubláum) jaðri. Fræflar
eru átta, ein fræva með fjögur fræni, verður að topplaga hýðisaldini sem
opnast með fjórum til fimm flipum í toppinn og teygir sig þá nokkuð upp
úr bikarnum. Fræin eru gulbrún, örsmá, um 0,3 mm á lengd. Laufblöðin eru
gagnstæð, striklaga, með örstuttum broddi, flest stofnstæð, 3-12 mm á
lengd.
Auðvelt er að rugla saman snækrækli
og ýmsum öðrum kræklum, t.d. skammkrækli, langkrækli og fjallkrækli.
Hann er að jafnaði dökkgrænni á litinn en skammkrækill og langkrækill,
sem báðir eru áberandi ljósgrænir. Þá er einnig gott einkenni á honum
hinn áberandi dökki jaðar á bikarblöðunum, en þau eru algræn á báðum
hinum. Frá fjallkrækli má oftast þekkja hann á fjórdeildum blómum, þótt
slík blóm komi örsjaldan fyrir hjá honum. Þá vottar heldur ekkert fyrir
þúfumyndun, sem er einkennandi fyrir fjallkrækil.
Snækrækill í Arnarfellsveri við Þjórsá árið 1982.
Snækrækill uppi á Kleifaheiði á Vestfjörðum árið 1985.