Skriðnablómið hefur hvít, fjórdeild blóm í klasa efst á stönglinum. Krónublöðin eru 7-10 mm á lengd, spaðalaga til tungulaga, hvít, niðurmjó en breiðari og ávöl í endann. Bikarblöðin eru ljósgræn eða gulleit, 3 mm á lengd, aflöng-egglaga, kvíslhærð ofan til. Fræflar eru sex, með gulhvítum frjóhirslum. Ein aflöng fræva með frænisknappi efst, verður að 2-4 sm löngum og 1-2 mm breiðum skálp við þroskun. Fræin eru brún, hliðflöt, um 1,5 mm á lengd, með mjóum himnufaldi. Laufblöðin eru bæði í stofnhvirfingu og stakstæð á stönglinum, oddbaugótt eða öfuglensulaga, gróftennt, venjulega loðin bæði á neðra og efra borði, sjaldnar nær hárlaus, 1,5-5 sm á lengd og 5-15 mm breið, stöngulblöðin stilklaus.
Skriðnablóm er fremur auðþekkt, líkist helzt melablómi, en þekkist á stærri blómum og á tiltölulega stórum, tenntum stöngulblöðum. Það þekkist frá fjörukáli á hinum grönnu, striklaga skálpum.