Klappadúnurt
Epilobium collinum
er fremur smávaxin
dúnurt sem vex í bröttum, sólríkum brekkum eða klettabeltum móti sól.
Hún hefur sívalan stöngul sem er jafnhærður allt í kring, en flestar
aðrar dúnurtir hafa einhliðhærðan stöngul. Blöðin eru reglulega
tennt. Flestir fundarstaðir eru á láglendi. Klappadúnurtin sést sjaldan
ofan 400 m nema við jarðhita. Hæsti skráður staður er Rákartindur í
Breiðamerkurfjöllum í um 750 m hæð.
Blóm klappadúnurtar eru rauð eða
bleikrauð, 7-8 mm á lengd. Bikarblöðin eru rauð eða græn.
Fræflar eru 8. Frænið er klofið í fjóra hluta, frævan 2-3
sm á lengd, loðin, situr neðan undir yfirsætinni blómhlífinni.
Stöngullinn er sívalur, jafnhærður hringinn í kring. Blöðin eru
gagnstæð, egglaga til egglensulaga, snubbótt í endann, greinilega tennt,
efri blöðin oft hærð á neðra borði, einkum miðtaugin.