Flóra Íslands - Blómplöntur
Hrímblaðka
Atriplex glabriuscula
vex eingöngu í
sjávarfjörum, í sandi eða möl. Hún er algeng allt í kring um landið.
Talið er að hér vaxi að minnsta kosti tvær tegundir af þessari ættkvísl,
hrímblaðka og hélublaðka, en skilin milli þessara tegunda eru óglögg, og
þekkjast þær tæplega nema á aldininum. Það er varla nema á færi
sérfræðinga að greina þær sundur.
Hrímblaðkan er allstórvaxin, einær
fjörujurt með greinda, gárótta, allt að 60 sm langa stöngla sem oftst
eru jarðlægir. Blómin eru einkynja, bæði kynin á sömu plöntunni.
Karlblómin eru 1-2 mm í þvermál með fimm, grænum eða rauðleitum
blómhlífarblöðum og 5 fræflum, frjóhirzlurnar eru gulleitar eða
bleikrauðar. Kvenblómin eru með einni frævu, blómhlífarlaus, en umlukin
tveim breiðtígullaga, odddregnum, grænum eða rauðum forblöðum sem stækka
verulega við aldinþroskun (5-7 mm), lykja um aldinið og eru samvaxin
neðst. Fræin eru dökk brún, hliðflöt, 3-4 mm í þvermál og dreifast með
sjónum. Laufblöðin eru stakstæð og stilkuð, blöðkur neðstu blaðanna eru
breiðegglaga eða þrístrendar, óreglulega bugtenntar með útstæðum
hliðarsepum, þær stærstu með þverum grunni en aðrar fleyglaga. Blöðkur
efri blaðanna eru mjórri, jafnvel lensulaga, þau efstu oft heilrend. Öll
jurtin meir eða minna þakin örsmáum, hvítum salthárum sem gefa henni
hélukennt yfirborð.
Greining íslenzku hrímblöðkunnar hefur löngum
verið vandamál, og niðurstöður einstakra sérfræðinga verið mismunandi.
Að hluta til hefur vandamálið verið það að tegundirnar verða ekki
aðgreindar nema með þroskuðum aldinum. Lengst af hefur verið talið að
hér vaxi tvær tegundir. Í fyrstu var talið að hér væri
Atriplex patula, en síðar var nefnd Atriplex
longipes subsp. praecox, en ætíð var mjög á reiki hvernig
þessar tegundir voru aðgreindar og hversu útbreiddar þær væru. Nú er
hins vegar talið að nánast öll hrímblaðkan við Íslandsstrendur tilheyri
Atriplex glabriuscula, en aðrar tegundir séu mjög sjaldgæfar.
Samkvæmt Flora Nordica á Atriplex longipes subsp. praecox
að hafa verið staðfest frá Breiðdalsvík. Reidar Elven hefur staðfest
eitt eintak af Atriplex patula sem safnað var á Oddeyri 1945, og
er það líklega slæðingur þar. Einnig hefur hann staðfest eitt eintak af
Atriplex littoralis frá Krossanesi. Það er smávaxin tegund sem er
nokkuð frábrugðin hrímblöðku. Mikið af þeim hrímblöðkum sem til eru á
söfnum eru ógreinanlegar vegna þess að þær eru ekki á réttu þroskastigi
til greiningar.
Hrímblaðka í fjöru í nágrenni Reykjavíkur
árið 1982.