Ætihvönn
Angelica archangelica
er ein stórvaxnasta
jurt landsins. Hún finnst víða um land þar sem vatn er nægilegt.
Vex gjarnan við læki og lindir, einkum inn til hálendisins. Er
einnig algeng á láglendi en vantar þó víða þar sem mikil beit er á
landinu. Hún er mjög eftirsótt af sauðfé og þolir illa að vera
bitin niður til grunna á hverju ári. Hún er einnig mjög
þurftarmikil, og sækir í áburðarríkt land. Þar verður hún oft
einráð ef beit heldur ekki aftur af henni. Þetta sést vel í gömlum
túnum í hinum yfirgefnu byggðum á Hornströndum, þar sem hún leggur undir
sig túnin og myndar þéttar, 2 metra háar breiður svo landið verður
torvelt yfirferðar. Einnig kemur þessi eiginleiki hvannarinnar
fram þar sem lúpína hefur eytt öllum gróðri en aukið frjósemi
jarðvegsins. Ef hún kemst á slík svæði, leggur hún þau gjarnan undir sig.
Ætihvönnin er gömul lækningajurt, sem menn héldu gjarnan í rækt heima
við bæi. Á síðustu árum hafa víðtækar rannsóknir verið gerðar á íslensku
ætihvönninni, og lyf úr henni sett á
markað.
Blóm ætihvannar standa mörg saman í
samsettum sveipum sem eru 10-20 sm í þvermál, gerðir af mörgum
smásveipum sem hver um sig er 1,5-2,5 sm í þvermál. Blómin eru 5-6 mm,
hvítleit. Krónublöðin eru grænhvít, tungulaga eða oddbaugótt. Fimm
fræflar eru í hverju blómi. Einnig ein fræva með tveim stílum; aldinið klofnar
í tvö deilialdin, hvort með fjórum rifjum öðrum megin. Blöðin eru
margsamsett, tví- til þrífjöðruð. Smáblöðin eru gróftennt, hárlaus.
Blaðslíðrin eru mjög breið og útblásin, lykja um allan sveipinn meðan
hann er að þroskast. Stöngullinn er mjög sterklegur, gáraður, með víðu
miðholi. Reifablöð smáreifanna eru striklaga, stórreifar vantar eða þær
falla snemma.
Ætihvönn á bakka
Mývatns árið 1963.
Þroskuð aldini
ætihvannar á Arnarhóli í Kaupangssveit í ágúst 2004