Snarrótarpuntur
Deschampsia cespitosa
er algengur um allt
land, nema sízt á Vestfjörðum þar sem hann virðist vera nýlegur landnemi, og í Skaftafellssýslu
og víðar á Suðurlandi, þar sem hann
er einkum í byggð. Á innanverðu Norðausturlandi er hann mjög
dreifður langt inn á heiðar og upp eftir fjöllum upp í 700 m hæð.
Hugsanlega er hann mjög gamall á því svæði, kominn þar löngu fyrir
landnám. Sumir telja þó að hann hafi borizt hingað með landnáms-mönnum,
en sé búinn að dreifa sér svona mikið síðan með sauðfé. Sé svo er þó
ekki ljóst hvers vegna hann hefur dreifst svona mikið um allt landræna
svæðið norðan jökla, en ekki um suðurhluta hálendisins.
Snarrótarpuntur er stórvaxið gras
með 2-4 mm breiðum, mjög snörpum og skarprifjuðum, þúfumyndandi blöðum.
Punturinn er 15-20 sm langur, keilulaga. Smáöxin eru tvíblóma,
fjólubláleit eða dökkbrún. Neðri axögnin er eintauga, 3-4 mm; sú efri
þrítauga, 3-5 mm. Löng hár eru umhverfis blómagnimar. Neðri blómögnin
hefur bakstæða týtu við fótinn. Slíðurhimnur
efstu blaðanna eru 5-6 mm langar.
Snarrótarpuntur í Eyjafirði árið 1963.
Nærmynd af punti snarrótar, tekin árið 1983.