Sérbýlisstör
Carex dioica
vex víða um allt
land í mýrum, oft fremur í hallandi mýrum og mýrum með
grunnum jarðvegi yfir klöppum frá láglendi upp í 500 m hæð. Hæstu
fundarstaðir eru við Gilsárvötn á Fljótsdalsheiði í 620 m(Sigurður H.
Magnússon) og í 600 m á Vaðlaheiði norður af Þingmannahnjúk (H.Kr.).
Sérbýlisstörin er algeng á láglendi og lægri heiðum
kring um landið, nema á Suðurlandi frá Þjórsá að Hornafirði, en á því
svæði eru fáir fundarstaðir. Vantar að mestu á hálendinu.
Erlendis er sérbýlisstörin útbreidd um Evrópu og einnig á nokkru svæði í
Asíu. Kvenplöntur sérbýlisstararinnar bera aðeins eitt kvenax, og
karl-plönturnar aðeins eitt karlax. Kvenaxið er gildvaxnara en karlaxið
og bæði blómgast snemma á vorin. Kvenaxið verður síðan mjög bústið
síðsumars þegar aldinin fara að þroskast.
Sérbýlisstörin er smávaxin með eitt
stutt, endastætt ax; blómin eru í sérbýli.
Öx kvenplantnanna oftast um eða innan við 1 sm á lengd,
nokkru gildari en karlöxin sem oft eru heldur lengri, 1-1,5
sm. Axhlífar kvenblómanna eru fremur breiðar, toppmyndaðar, gljáandi,
himnu-kenndar, brúnar að lit. Hulstrin eru brún, með nokkurri trjónu
og tvö fræni. Axhlífar karlblómanna eru ljósbrúnar. Stráin eru nokkuð
sívöl, blöðin mjó (1 mm), rennulaga neðan til, ganga síðan fram í flatan
odd.
Blómstrandi kvenblóm á sérbýlisstör
vorið 1982
Blómstrandi karlblóm á sérbýlisstör
við Urriðakotsvatn vorið 1982
Nærmynd af aldinum á
kvenaxi sérbýlisstarar síðsumars 1982 í nágrenni Reykjavíkur