Belgjastörin hefur eitt til þrjú legglöng, nokkuð upprétt kvenöx, og eitt karlax í toppinn. Hún líkist einkum slíðrastör, og hefur langt blaðslíður undir blómskipaninni eins og hún. Belgjastörin þekkist frá slíðrastör á því að hún er blágrænni á litinn, og vex fremur í deiglendi. Axhlífarnar eru ljósar eða dökkbrúnar, yddar í endann, með mjóum hvítleitum himnufaldi. Hulstrin eru grænbrún eða dökkbrún, 4-5 mm löng, útbelgd, með skakkri trjónu. Þrjú fræni. Blöðin eru allbreið, 2,5-4 mm, blágræn; slíður stoðblaðanna langt, 10-20 mm.