Belgjastör
Carex panicea
er útbreidd um allt
land, en vex í meira magni á Suðurlandi en Norðausturlandi. Hún
vex í grónum hálfdeigjum, vætu og rökum flögum, og er áberandi blágræn á
litinn. Belgjastörin vex einkum á láglendi upp að 350 m. Hæsti
fundarstaður hennar er í 550 m í hlíðum Járnskara í Norðfirði
(Hjörleifur Guttormsson) og í 400 m við Gönguskarð í Kinnarfjöllum.
Belgjastörin hefur eitt til þrjú
legglöng, nokkuð upprétt kvenöx, og eitt karlax í toppinn. Axhlífar
ljósar eða dökkbrúnar, yddar í endann, með mjóum hvítleitum himnufaldi.
Hulstrin eru grænbrún eða dökkbrún, 4-5 mm löng, útbelgd,
með skakkri trjónu. Þrjú fræni. Blöðin eru allbreið, 2,5-4 mm, blágræn;
slíður stoðblaðanna langt, 10-20 mm.