er af munablómsætt
og minnir á gleym-mér-ei, en hefur minni, nær hvít blóm, og miklu
styttri blóm- og aldinleggi. Í raun er blómalitur kisugrassins afar breytilegur,
blómin eru gulhvít í fyrstu þegar þau springa út, verða síðan fljótlega
bleik eða fjólublá, og dökkna að lokum og verða blá. Það vex aðeins á
takmörkuðum svæðum á Suðvesturlandi, og því ekki nærri eins algengt og
gleym-mér-eiin. Hefur aðeins fundizt á láglendi.
Kisugrasið er einær jurt með grönnum, uppréttum stöngli.
Blómin eru fyrir blómgun í uppvafinni hálfkvísl sem réttir síðan úr sér
og líkist þá klasa. Krónan er um 2-3 mm í þvermál, í fyrstu gulhvít,
síðan rauðfjólublá og að lokum blá. Krónupípan er 3-4 mm á lengd.
Fræflar eru fimm. Kisugrasið hefur eina frævu sem verður að ferkleyfu klofaldini.
Bikarinn er klofinn niður fyrir miðju, krókhærður, bikarfliparnir
oddmjóir og strýhærðir. Aldinleggurinn er styttri en bikarinn,
útstæður. Stöngullinn er aðhærður. Blöðin eru aflöng, lensulaga
eða oddbaugótt, strýhærð.