Blóm blóðbergsins standa allþétt saman á stöngulendum í öxlum efstu blaðanna. Krónan er rauð, fimmdeild, samblaða, varaskipt. Krónu-fliparnir eru ávalir, og mynda tveir þeir efri efri vörina, en þrír mynda þá neðri. Bikarinn er samblaða, einnig varaskiptur, loðinn, með oddmjóum flipum og vísa þrír upp og tveir niður. Fræflar eru fjórir, tveir langir og tveir stuttir. Frævan er tvíblaða með einum stíl. Stöngullinn er ferstrendur, tvíhliða hærður, stundum alhærður. Laufblöðin eru lítil, 3-5 mm löng, gagnstæð, spaðalaga eða öfugegglaga, með grófum randhárum neðan til.
Blóðberg í klettaskoru í Glerárgili við Akureyri árið 1963.
Blóðberg á milli steina í Sælingsdal, Dalasýslu árið 1985.