Hrafnastör
Carex saxatilis
er meðalstór stör
með dökkbrún, gljáandi hulstur. Hún vex í mýrlendi, oft í grýttu
mýrlendi og smátjarnapollum, ekki sízt til fjalla. Hún er algeng
um mestallt land frá láglendi upp í um 700 m hæð til
fjalla og á hálendinu. Hún er þó fátíð sums staðar syðst á landinu í
Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslum, þar helzt inn til hálendisins.
Hæstu fundar-staðir eru á Merkigilsfjalli við Austurdal í Skagafirði í
900 m hæð, meðfram Laugarfellshnjúk og í Vesturbug við
Illviðrahnjúka í 750 m og í austurhlíðum Snæfells í 720-730 m hæð.
Utan Íslands nær hún allan hringinn um norðurhjarann.
Hrafnastör ber oftast tvö gljáandi,
dökkbrún eða brúnsvört kvenöx og eitt karlax í toppinn. Axhlífarnar eru
svartar, miðtaugin samlit. Hulstrin eru oftast dökkbrún eða svört,
sjaldnar ljósmóbrún neðan til, gljáandi, með trjónu. Blöðin eru rennulaga,
2-4 mm breið; rendur upporpnar.