er fjölær jurt sem líkist
nokkuð hvítsmára, en er með uppsveigðum eða uppréttum
stöngli. Blómin eru í þéttum, hnöttóttum kolli
(2-3 sm) sem stendur á löngum legg í blaðöxlum. Blómin eru heilkrýnd,
stuttstilkuð. Krónan er hvít, bleik eða bleikrauð, 8-12 mm á lengd,
einsamhverf. Bikarinn er meir en helmingi styttri en krónan,
3-4 mm, ljósgrænn eða hvítleitur, klofinn ríflega niður til miðs með 5
mjóum, oddhvössum flipum, greiparnar milli þeirra himnurendar. Fræflarnir
eru 10, frævan ein sem verður að litlum belgi með tveim fræjum. Blöðin
eru langstilkuð, þrífingruð. Smáblöðin eru öfugegglaga, sljótígullaga
eða kringlótt, nær stilklaus, oftast 2-3,5 sm á lengd, fín-
en skarptennt með framvísandi tönnum í framhaldi æðastrengjanna, hárlaus
nema á stöku stað meðfram blaðröndinni. Axlablöðin eru allstór, 1-1,5 sm
á lengd, með grænum æðastrengjum og löngum oddi að framan.
Túnsmári getur líkst bæði hvítsmára
og rauðsmára. Frá hvítsmára þekkist hann einkum á uppréttum, greindum
stönglum og á oftar bleikum blómum en hvítum. Frá rauðsmára má þekkja
hann á hárlausum smáblöðum, og á hinum skörpu tönnum á blaðröndunum út
frá æðastrengjunum.
Túnsmári er aðfluttur á Íslandi á
síðari árum, líklega frá því fyrir miðja 20. öldina, einkum hefur honum
verið sáð bæði í tún, til landgræðslu og meðfram vegum. Í dag finnst hann
á víð og dreif um landið, einkum í vegsáningum, meðfram raflínum,
jarðstrengjum og annars staðar þar sem reynt hefur verið að græða raskað
land. Aðeins er vitað um hann á láglendi. Hann hefur einnig gengið undir
nafninu alsikusmári.
Myndirnar af túnsmára eru teknar á Suðvesturlandi við Hólmsá, 29. júlí 2008
Nærmynd af kolli túnsmárans.