er lítil, einær
jurt af súruætt sem má heita algeng um allt land.
Naflagrasið er auðþekkt frá öllum
öðrum íslenskum plöntum. Fáar einærar jurtir eru jafn vel aðlagaðar
heimskautaloftslagi eins og naflagrasið. Það blómgast og þroskar fræ á
ótrúlega stuttum tíma, og þótt hvert blóm myndi aðeins eitt fræ, geta
marggreindar plöntur borið allt að 40 blóm.
Naflagrasið vex oft í þéttum, rauðum breiðum í rökum
flögum, ár og lækjareyrum, eða í kalblettum á túnum. Það er algengt um allt land, og finnst
oft uppi í 900-1000 m hæð í fjöllum og á hálendinu. Eyður eru í
útbreiðslu þess á sandauðnum öræfanna. Hæstu þekktu fundarstaðir eru í
Vonarskarði og uppi á Skessuhrygg í Höfðahverfi í 1050 m hæð yfir sjó.
Naflagrasið er hárlaus jurt sem vex í opnum, rökum
flögum. Stöngullinn er uppréttur eða uppsveigður, ýmist nær ógreindur
eða marggreindur. Blómin eru tvíkynja, þrídeild, nokkur saman í
smáskúfum á stöngulendunum, oft meir eða minna umlukin efstu
laufblöðunum sem eru grænleit eða móleit. Blómhlífin er einföld,
blómhlífarblöðin snubbótt og hvítleit í endann, oft græn eða rauð neðar,
1-2 mm á lengd og stundum samgróin neðst. Þrír fræflar og ein stíllaus
fræva. Aldinið er egglaga, stutttrýnt, um 2 mm löng, dökkbrún hneta og
myndast aðeins ein slík í hverju blómi. Blöðin eru stilkstutt eða
stilklaus, heilrend og öfugegglaga, græn eða rauð.