Stönglar hárdeplunnar eru oft jarðlægir, hærðir, með uppsveigðum greinum. Blómin eru mörg saman í klösum sem koma úr efri blaðöxlunum, stuttleggjuð, 4-6 mm í þvermál, fjórdeild. Krónublöðin eru ljósblá með dekkri æðum. Bikarinn er kirtilhærður með fjórum flipum. Fræflar eru 2. Ein fræva sem verður að hjartalaga aldini með löngum, bognum stíl. Stöngullinn er loðinn. Laufblöðin eru gagnstæð, egglaga eða oddbaugótt, 2-7 sm á lengd og 1,5-3,5 sm á breidd, á stuttum stilk, loðin og tennt, tennur misstórar.