Sandmunablómið er einær jurt.
Blómin eru í uppvafinni hálfkvísl fyrir blómgun sem réttir síðan úr sér
og líkist þá klasa. Krónan er örsmá, um 2 mm í þvermál, dökkblá, hvít
innst við blómginið. Bikarinn er fimmtenntur, klofinn til miðs eða
dýpra, með útstæðum krókhárum. Fræflar eru fimm. Ein fræva, sem verður
að ferkleyfu klofaldini. Aldinleggir eru miklu styttri en bikarinn,
aðlægir að stönglinum. Stöngullinn hefur fá, lensulaga eða
mjóöfugegglaga blöð.
Sandmunablóm í Eyjafirði árið 1983. Aldinin eru nánast legglaus.
Sandmunablóm í Leifsstaðabrúnum í Eyjafjarðarsveit 17. júní 2006.
Nærmyndin af blómum sandmunablómsins á Skáldsstöðum í Eyjafjarðarsveit í júní 2011. Blómin eru hvít í miðju, en ekki gul eins og á gleym-mér-ei.