Vatnsnál
Eleocharis palustris
eða
tjarnaskúfur vex einkum í fremur grunnu vatni í
tjarnapollum, síkjum og meðfram stöðuvötnum í leðjubotni. Hún er skriðul
og myndar nær ætíð þéttar, samfelldar breiður. Hún þrífst hvorki á kafi
í vatni né á þurru. Þess vegna kemur hún yfirleitt ekki fyrir í vötnum
þar sem vatnsborð sveiflast verulega eða þornar upp á ákveðnum árstímum.
Hún er algeng um land allt á láglendi um
eða neðan 200 m. Aðeins í Mývatnssveit og við Víðiker í Bárðardal eru
staðfestir fundir vatnsnálar í 300-350 m hæð y.s. í köldum jarðvegi.
Hins vegar hefur hún fundizt á jarðhitasvæðum allt upp í 600 m hæð, t.d.
á Hveravöllum og í Landmannalaugum
Vatnsnálin er fjölær, nokkuð stórvaxin
jurt af stararætt með 1-1,8 sm löngu, brúnu eða rauðbrúnu axi á
stráendanum. Tvær axhlífar eru neðan undir axinu, snubbóttar,
himnurendar, með grænni miðtaug, og feðma hvor um sig utan um axgrunninn
til hálfs. Stoðblöð blómanna eru oddmjó, rauðbrún. Sex burstar eru í
stað blómhlífar. Frævan er með stút í toppinn og tvö fræni. Fræflar
eru sex.
Stráið er sívalt, holt innan, með blöðkulausum blaðslíðrum neðst, sem
oft eru með brúnum jaðri.