Dagstjarnan hefur einkynja blóm í sérbýli. Blóm hennar eru fimmdeild, 1,5-2 sm í þvermál, nokkur saman í kvíslskúf á stöngulendanum. Krónublöðin eru 20-25 mm löng, tvöfalt lengri en bikarinn, rauðbleik, nagllöng en frambreið með skerðingum í endann. Bikar karlblóma er langbjöllulaga, víkkar jafnt upp, klofinn um fjórðung niður í oddmjóa sepa, kafloðinn og dumbrauður. Bikar kvenblómanna er uppblásinn og víðari um miðjuna. Fræflar eru tíu í karlblómum, ein fræva með fimmskiptu fræni í kvenblómum. Blöðin gagnstæð, breiðlensulaga, loðin, 2-8 sm á lengd og 1-3,5 sm á breidd, nær heilrend, þau efri stilklaus en stofnblöðin stilkuð. Stöngullinn er gáraður, kafloðinn, allgildur neðan til (2-6 mm).
Hér er dagstjarna í sínu venjulega umhverfi utan garða, myndin tekin á Akureyri árið 1982.
Dagstjarna í návígi á Leifsstöðum í Kaupangssveit 22. júní 2006.