Þráðsefið er fjölær jurt af sefætt. Stráin eru sívöl, fremur grönn, nálarlaga; fá þéttstæð blómhnoðu í hnapp sem virðist vera á miðju stráinu eða neðar; en í rauninni er stoðblaðið svona langt í beinu framhaldi af stráinu. Blómhlífin er 6-blaða. Blómhlífarblöðin eru odddregin, ljósbrún eða grænleit. Fræflar eru 6 með gulgrænum frjóhirslum. Frævan er rauð með bleikt, þrískipt fræni. Aldinin eru gljáandi, ljósbrún. Ljósgulbrúnt slíður neðst á stönglinum með örstuttum broddi í stað blöðku.