Blóm klófífunnar standa í fjórum
til sex leggjuðum, drúpandi öxum til hliðar við alllangt, grænt
stoðblað. Axhlífarnar eru himnukenndar og glærar neðst, grábrúnar ofan
til. Blómin eru umkringd hvítum hárum í stað blómhlífar. Hárin lengjast
verulega við aldinþroskunina og verða að 2-3 sm löngum
svifhárum. Fræflar eru þrír; frjóhirslurnar langar (4-5 mm), gular. Ein
fræva með löngu þrískiptu fræni er í hverju
blómi. Stöngullinn er sívalur. Blöðin eru 4-8 mm á breidd,
flöt eða kjöluð neðan til, en verða hvassþrístrend ofan til.
Hér stendur útsprungin klófífa í fullum blóma, og hanga fræflarnir út úr blómunum. Myndin er tekin í Hvalfirði árið 1977.
Hér sjáum við klófífuna með þroskuð aldini, reiðubúin að fara að sleppa fræjunum út í vindinn.