Móalógresi
Trisetum molle
má heita algengt um
landið nema hátt til fjalla og á miðhálendinu. Stráið er áberandi loðið
og tegundin líkist nokkuð fjallalógresi, en
er heldur stærra og grófgerðara, punturinn móleitur eða grábrúnn, en
ekki með þeim dökkfjólubláa keim sem einkennir venjulegt fjallalógresi. Oft
hefur það verið talið til sömu tegundar sem deilitegund og heitir þá
Trisetum spicatum subsp. pilosiglume. Einnig hefur það gengið
undir nafninu Trisetum triflorum eða Trisetum maritimum. Móalógresið finnst frá
láglendi upp í um 600 m hæð.
Móalógresi er fjölær grastegund með
grönnum, axleitum, 3-7 sm á löngum, grágrænum eða grænum punti. Smáöxin
eru (tví-)þríblóma. Axagnirnar eru 3-4,5 mm á lengd, loðnar,
grænar eða lítið eitt fjólubláleitar, oddhvassar með mjóum himnufaldi.
Neðri blómögn ber langa, oft útsveigða baktýtu, festa ofan við miðju.
Axagnir og blómagnir eru loðnar. Stráin og blaðslíðrin eru
þéttloðin.