Laugasef
Juncus articulatus
er víða um land á
láglendi, algengt í hlýrri sveitum. Það vex í síkjum og skurðum,
blautum flögum og lækjareyrum, og í volgum jarðvegi við laugar. Í köldum
jarðvegi finnst laugasef aðeins á láglendi, upp í um 350 m hæð. Hins
vegar vex það mjög víða á hálendinu við heitar laugar, hæst skráð við
Hrafntinnuhrygg í 1050 m hæð.
Blóm laugasefsins standa nokkur
saman í allmörgum (3-10) blómhnoðum, á nokkuð útstæðum, mislöngum
leggjum. Blómhlífin er 6-blaða, blómhlífarblöðin oddhvöss, brún, 3-4 mm
löng, stundum grænleit í miðju. Fræflar eru 6, frævan með 3 frænum.
Aldinið er dökkbrúnt, a.m.k. í toppinn. Blöðin eru sívöl, 1-2,5 mm
breið, hol innan með þverveggjum, neðstu blaðslíðrin yfirleitt áberandi
rauð.
Eina tegundin sem líkist verulega laugasefi er mýrasef. Það þekkist
á uppréttari greinum í blómskipuninni, heldur minni blómhnoðum, og hefur
nánast aldrei rauð blaðslíður við fótinn eins og laugasefið.