Ginhafri
Arrhenatherum elatius
er stórvaxin
grastegund með alllöngum, fremur grönnum, gulgrænum punti, og standa
knébeygðar týtur út úr puntinum. Ginhafrinn er oft metri eða meira á
hæð, og myndar þéttar breiður af flötum, og nokkuð breiðum blöðum.
Ginhafrinn vex aðeins á einum stað villtur á Íslandi, í bröttum
brekkum undir fuglabjargi við Pétursey í Mýrdal. Þar vex
hann í þéttum, allstórum, aðskildum breiðum í brattri grasi gróinni
brekku undir fuglabjargi. Ekki er ólíklegt að hann hafi borizt
þangað með fuglum.
Ginhafri er fjölært
gras. Punturinn er 12-20 sm langur, gulgrænn til gráfjólublár. Smáöxin
eru 7-8 mm löng, tvíblóma, það neðra karlblóm með langri, knébeygðri
týtu sem stendur langt (7-8 mm) út úr axinu, það efra tvíkynja með
stuttri og beinni týtu sem nær aðeins út úr smáaxinu. Blöðin eru flöt,
3-6 mm breið, hárlaus að mestu, slíðurhimnan 1-3 mm löng.