Þistill
Cirsium arvense
er stórvaxin jurt
af körfublómaætt. Hann er innfluttur og hefur borizt með
manninum til Íslands. Þistillinn var bæði notaður til lækninga, og líklega einnig
til vefnaðar. Fyrsti staðurinn sem hans er getið er á Nolli við
Eyjafjörð, og þar mun hann hafa verið kominn fyrir um 300 árum og er
getið í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar. Hann vex hér og hvar í byggð í þéttum breiðum, oft
meðfram vegum. Breiðurnar eru venjulega ekki mjög stórar, enda blómstrar
hann mjög seint og þroskar líklega ekki fræ á hverju ári.
Blöðin eru þyrnótt á röndunum.
Þistillinn er marggreinótt, fjölær
jurt, efst með margar, þéttblóma, purpurarauðar körfur, sem hver um sig
situr á bústnum, egglaga hnappi, sköruðum af dökkgráum reifablöðum með
útstæðum, rauðleitum eða dökkum oddi. Krónurnar eru pípulaga, bognar.
Stönglar eru gáróttir, með þyrnum. Laufblöðin eru fjaðurflipótt,
greipfætt, 5-12 sm á lengd, fliparnir óreglulega tenntir og
þyrnóttir, neðra borð blaðanna er gráhvítt, þéttlóhært.