Blóm sýkigrassins eru gulhvít og
standa þétt saman í stuttu, nær hnöttóttu (5-7 mm) axi efst á blaðlausum
stöngli. Blómhlífarblöðin eru sex, oddbaugótt eða lensulaga, 2-3 mm á
lengd. Fræflar eru sex. Ein þrískipt fræva með þrem frænum; aldinið er
um 3 mm á lengd, klofnar í þrennt við þroskun, hver hluti bjúglaga með
stutta trjónu. Blöðin eru öll við stofninn, sverðlaga, upprétt og
heilrend, 2-3 sm á lengd og um 2 mm á breidd.
Blómstrað sýkigras á Arnarhóli í Kaupangssveit 26. júní 1982.
Þroskuð aldini á sýkigrasi í Þjórsárverum í júlí 1982