Einær, fíngerð og smávaxin jurt,
ýmist örsmá og fágreinótt eða stærri og marggreinótt. Blómin standa í
klösum, fjórdeild. Krónublöðin eru hvít, 2-4 mm á lengd, með djúpri
klauf í endann, stundum klofin niður undir miðju. Bikarblöðin eru 1,2-2
mm á lengd, sporbaugótt, græn, oft fjólublá til jaðranna og gishærð.
Fræflar eru sex, með gulum frjóhnöppum. Ein fræva sem
verður að oddbaugóttum, 4-6 mm löngum og 2-2,5 mm breiðum, hárlausum
skálp. Tvær raðir af fræjum í hvoru frærými skálpsins. Stönglarnir eru
grannir, hárlausir og blaðlausir. Blöðin eru öll í stofnhvirfingu, 5-12
mm löng og 2-4 mm breið, lensulaga eða oddbaugótt, fátennt eða nær
heilrend, með kvíslhárum. Vorperlan blómstrar mjög snemma, síðast í
apríl eða byrjun maí, og fellir blómin og þroskar fræ snemma á sumri. Á
miðju sumri er hún því lítt sýnileg, uppi standa aðeins visnaðir
stönglarnir með skástæðum skálpleggjum sem bera skálprammana með
miðhimnu skálpsins eftir að plantan hefur fellt fræin.
Vorperla í grasgarðinum í Laugardal vorið 1982.
Blómstrandi vorperla á Núpufellshálsi í Eyjafirði 29. apríl 2007.