Skurfan er einær, fremur smávaxin
jurt, öll kirtilhærð og límkennd viðkomu. Stöngullinn myndar margar
uppréttar eða skástæðar greinar við stofninn, eða er ógreindur. Blómin
eru fimmdeild, tvíkynja, nokkur saman í kvíslskúf á stöngulendunum,
krónublöðin eru hvít, snubbótt, lítið lengri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru
egglaga, græn með ljósum himnufaldi, stundum ofurlítið bleikleit.
Fræflar eru 5 eða 10, ein fræva sem verður að allstóru, nær hnöttóttu
hýðisaldini við þroskun, sem opnast með 5 tönnum, og stendur þá langt
upp úr bikarnum. Fræin eru svört, mjóvængjuð, 1-1,5 mm í þvermál, 10-20
saman í hverju aldini. Blöðin eru kransstæð, sex til átta eða fleiri saman,
þráðmjó og striklaga, 1-4 sm á lengd.