er nokkuð útbreitt
á Vestfjörðum og Austfjörðum, en mjög sjaldgæft annars staðar. Það vex
einkum í blautum eða rökum flögum, eða á votlendum klettasyllum.
Dökkasefið er nokkuð gróf jurt með einu til tveimur
stórum, 5-10 blóma blómhnoðum; það efra minna en hið neðra. Blómhlífin
er 6-blaða. Blómhlífarblöðin eru oddmjó, dökkbrún. Fræflar eru 6 með
gulgræna frjóhnappa. Frævan hefur stuttan stíl með þrískiptu fræni.
Aldinið er stórt, 5-8 mm langt, gljáandi, dökkbrúnt í toppinn, með
greinilegri trjónu. Blöðin eru sterkleg, rennulaga, 1-2,5 mm breið. Lengi hefur þessari tegund verið skipt niður í tvær
deilitegundir, subsp. castaneus í Evrópu og vestanverðri Asíu,
og subsp. leucochlamys í Grænlandi, Kanada og austanverðri
Asíu. Reidar Elven hefur fært rök fyrir því, að telja beri þetta tvær
mismunandi tegundir, og við skoðun allra sýna í plöntusöfnunum á
Akureyri og í Reykjavík kom í ljós, að öll sýni frá Vesturlandi tilheyra
Juncus leucochlamys, en sýnin frá Austurlandi eru Juncus
castaneus. Samkvæmt því eiga aldinin að vera lengri á J.
leucochlamys og blómhlífarblöðin nokkurn veginn jafnlöng og lengri
en á J. castaneus; á J. castaneus eru innri
blómhlífarblöðin miklu styttri en hin. Einnig er talið að
blómskipanir í fleiri hæðum séu algengari á J. leucochlamys en
J. castaneus.
Hér er dökkasef í
Breiðdal við Reyðarfjörð þann 3. sept. 2009
Hér sjást aldin dökkasefs, tekið á sama stað.
Myndin af aldinum
dökkasefsins hér að ofan er tekin á Þverárfjalli á Skaga 5.
ágúst 2009.