er mjög sjaldgæf
stör á Íslandi. Hún er skyld gullstör og trjónustör, nokkuð stærri en
gullstörin en minni en trjónustörin. Lengi vel hafa menn ekki greint
hana frá gullstörinni, sem hún oft líkist mjög. Hún er hærri og
uppréttari en gullstörin, öxin heldur gisnari, hulstrin eru stærri (3-5
mm löng) og haldast lengur græn (gulna fyrr á gullstörinni). Blöðin eru
breiðari en á gullstör, og neðsta kvenaxið er oft langt fyrir neðan hin
(sbr. mynd). Ekki er með vissu vitað um útbreiðslu grænstarar á Íslandi,
vegna þess að hún hefur verið illa aðgreind frá gullstör. Mest virðist
þó vera af henni á Vesturlandi. Erlendis hefur grænstörin fremur
takmarkaða útbreiðslu í Norðvesturevrópu, á Norðurlöndunum,
Eystrasaltslöndum, Bretlandseyjum og Færeyjum.
Grænstörin hefur 2-3 egglaga, græn kvenöx og eitt karlax
í toppinn. Axhlífar eru ljósbrúnar, stundum með grænni miðtaug,
odddregnar. Hulstrið er grænt, rifjað og taugabert með langri trjónu sem
er nær þriðjungur af lengd hulstursins. Frænin
eru þrjú. Neðsta kvenaxið er
oft neðarlega á stráinu, langt fyrir neðan hin. Blöðin eru flöt, 2-3,5
mm breið. Neðsta stoðblaðið er venjulega stórt, útstætt og upprétt, nær
upp fyrir blómskipunina
Myndin af grænstör er
tekin við Langavatn á Snæfellsnesi í júlí 2007.