Síkjabrúða
Callitriche brutia var. hamulata
er fíngerð jurt sem vex oftast á kafi í grunnu vatni.
Hún var áður í vatnsbrúðuætt, en hefur nýlega verið flutt yfir í
græðisúruætt ásamt öðrum tegundum ættkvíslarinnar. Hún myndar oft
allþéttar flækjur í vatninu. Hún hefur gagnstæð, striklaga blöð og
blómin eru í öxlum blaðanna. Hún er mjög víða um allt land upp
undir 500 m hæð. Hæst fundin við Landmannalaugar í 600 m hæð (Eyþór
Einarsson), við Bláfell við Hvítárvatn í 580 m (Steindór Steindórsson),
og á Kerlingarflötum á Kili í 520 m (Sigurður H. Magnússon). Þessi
tegund hefur lengi gengið undir nafninu C. hamulata, en er nú
talin vera afbrigði af þeirri tegund sem nefnd hefur verið C. brutia
og hefur stilkuð blóm og aldini. Callitriche brutia var.
brutia (lækjabrúða), er mjög sjaldgæf á Íslandi.
Blöð síkjabrúðunnar eru af tveim
gerðum. Kafblöðin gagnstæð, striklaga og örmjó, 1-2,5 sm löng, 0,3-0,5
mm breið, með tvær hárfínar klólaga tennur í endann. Flotblöðin
eru 5-8 mm
löng, frambreið, buguð í endann, mynda hvirfingar á greinendunum ef þær
ná upp úr vatninu. Blómin eru einstök í blaðöxlunum, blómhlífarlaus;
karlblómin hafa einn fræfil og kvenblómið eina frævu. Aldinið er
svargrænt, nær kringlótt, 1,5 mm í þvermál.