Blóm fjalladeplunnar eru 3-5 mm í þvermál, í stuttum klasa, dökkblá, leggstutt. Krónublöðin eru misstór. Bikarblöðin eru dökk-blágræn eða svarblá, með grófum, hvítum randhárum. Fræflar eru tveir, ein fræva með einum stíl. Aldinið er 4-6 mm á lengd, oftast hárlaust, sýlt í endann og með örstuttum (1mm) stíl. Stöngullinn er blöðóttur. Blöðin eru oddbaugótt eða öfugegglaga, randhærð neðan til, ofurlítið sljótennt, stilklaus eða stilkstutt. Af fjalladeplu eru tvö afbrigði eða deilitegundir: subsp. alpina með hárlaus aldini, en subsp. pumila með kafloðin. Báðar eru nokkuð algengar.