Gulstör
Carex lyngbyei
er algeng á
láglendi í kring um landið, sums staðar nær hún upp í 500 m hæð yfir
sjó. Hún vex í flæðimýrum við sjó og meðfram ám, og hér og þar um
hálendið, einkum við járnríkar uppsprettur og mýrarkeldur. Hún nær
almennt upp í um 500-600 m hæð á hálendinu, sjaldan ofar
nema sem kynblendingur gulstarar og stinnastarar. Hæst
skráð í 700 m hæð við Eyjabakka og Hvítárvatn, en eintök frá þeim stöðum
eru a.m.k. í sumum tilfellum kynblendingar við stinnastör. Aðalheimkynni
gulstarar eru á vesturströnd Norður-Ameríku frá Kaliforníu norður til
Alaska svo og Aljútaeyjar og Kamtsjatka. Einnig á takmörkuðu svæði á
Suður-Grænlandi, Íslandi og í Færeyjum, en ekki annars staðar í Evrópu.
Gulstörin er stórvaxin
stör með tveimur til fjórum hangandi, legg-löngum kvenöxum og ei, nu til
tveimur uppréttum karlöxum. Axhlífar eru dökkbrúnar, gljáandi, oddmjóar
með löngum oddi. Hulstrin eru oddbaugótt, trjónulaus, mött. Frænin eru
tvö. Stráin eru skarpþrístrend. Blöðin eru afar stór og gróf, 4-10
mm breið, með niðurorpnum röndum og verða þau gulgræn síðsumars.
Blaðslíðrin eru oft rauðleit eða rauðbrún.