Fjallkrækill
Sagina caespitosa
er smávaxin jurt
sem er fremur sjaldgæf á Íslandi, finnst einkum frá fjöllunum umhverfis
Fnjóskadal og austur undir Langanes. Hann vex í flögum eða
flagkenndum móum, venjulega uppi á flötum fjallanna eða uppi á hæðum og
bungum. Hæst hefur hann fundizt í 900 m hæð. Fjallkrækillinn er með
hvít, fimmdeild blóm og vex oftast í þyrpingum eða myndar smáþúfur.
Fjallkrækillinn er hárlaus,
ofurlítið þúfumyndandi jurt með mörgum stuttum (1-2 sm) blómstönglum.
Blómin eru 4-6 mm í þvermál, oftast fimmdeild, sjaldnar fjórdeild,
krónublöðin hvít, lítið eitt lengri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru
egglaga eða sporbaugótt, snubbótt eða sljóydd í endann, oftast meir eða
minna rauðfjólublámenguð, einkum jaðarinn, en stundum græn, 2-3 mm
löng. Fræflar eru tíu, frævan ein með 5 fræni. Aldinið er meira eða minna
hnöttótt hýðisaldin, aðeins lengra en bikarinn, sem lykur þétt um
aldinið. Laufblöðin eru gagnstæð, striklaga, broddydd, 3-5 mm löng,
stofnblöðin oft lengri, hárlaus.
Fjallkrækillinn vex að jafnaði uppi á fellum, bungum eða
hæðarbrúnum, í hálfrökum flögum eða flagkenndum melum. Hann er mjög
sjaldgæfur á Íslandi, útbreiddastur á norðaustanverðu landinu. Hann
finnst nær eingöngu til fjalla, mestmegnis í 400-800 m hæð, en stundum
þó neðar, allt niður í 200 m. Aðalheimkynni fjallkrækilsins virðast vera
í fjalllendi frá Eyjafirði austur um Norðausturland og Austfirði suður
undir Lón, og einkum þá nær ströndinni fremur en langt inni í landi.
Utan þessa svæðis hefur hann fundizt á nokkrum fellum innanvert við
Auðkúluheiði í Húnavatnssýslu, á Ströndum, og að lokum eru stakir
fundarstaðir uppi á Hólminum við Hítarvatn og á Kaldbak á
Síðumannaafrétti. Ýmsar vísbendingar hafa komið fram um að útbreiðsla
fjallkrækilsins sé að dragast saman, þar sem hann hefur oft ekki fundizt
aftur á stöðum þar sem hann áður var. T.d. mun hann vera horfinn af
Hólminum við Hítarvatn, þar sem áður var mikið af honum.
Hér sést blómstrandi
fjallkrækill uppi á Draflastaðafjalli við Fnjóskadal 5. júlí
2002.
Hér er fjallkrækillinn með þroskuð
aldini 11. ágúst 2005 uppi á Kinnarfelli í Köldukinn.