Axhnoðapuntur (Dactylis glomerata) er innfluttur á fyrri hluta 20. aldar og er ræktaður í sáðsléttum. Hann hefur ofurlítið dreifst þaðan og vex að staðaldri í túnjöðrum og víðar. Hann blómstrar nokkuð seint hér, og þroskar ekki fræ í öllum árum, og tefur það fyrir útbreiðslu hans í samanburði við háliðagrasið sem þroskar fræið vel og snemma. Hann vex því að jafnaði aðeins á byggðum bólum og næsta nágrenni þeirra.
Axhnoðapunturinn er hávaxinn, smáöxin eru mörg saman í þéttum hnoðum sem standa utarlega á puntgreinunum. Puntgreinar eru snarpar, smáöxin þrí- til fjórblóma, mismikið hærð, axagnirnar fjólubláleitar eða gráar, þrítauga og enda í oddhvassri týtu. Neðri blómögnin er fjólubláleit eða gráleit, endar í oddhvassri týtu, fimmtauga með skörpum kanti um miðtaugina. Frjóhirzlur eru ljósbrúnar eða fjólubláleitar, 3-4 mm á lengd. Blöðin eru breið, 4-7 mm, og mynda áberandi, upprétta toppa við stofn plöntunnar.