Hnoðafræhyrna
Cerastium glomeratum
finnst á nokkrum
stöðum á suðvestanverðu landinu, einkum við jarðhita.
Hnoðafræhyrna getur minnt nokkuð á músareyra eða vegarfa, en þekkist
einkum á mun breiðari laufblöðum, og fleiri blómum í þéttari
kvíslskúfum. Krónublöðin eru af svipaðri lengd og á vegarfa, en blómin
opna sig lítið. Krónublöðin eru á lengd við
bikarblöðin, og jurtin er áberandi kirtilhærð ofan til. Hún er einær og
hefur því enga blómlausa fyrraárssprota við stofninn.
Hnoðafræhyrnan er trúlega nokkuð gamall, aðfluttur slæðingur sem einkum
finnst á Suðvesturlandi og Suðurlandi austur í Hornafjörð. Hefur á
Norðurlandi aðeins fundizt við laugar. Nær allir fundarstaðir eru á
láglendi, hæst fundin við jarðhita í Landmannalaugum í 590 m hæð.
Hnoðafræhyrnan hefur loðna, greinda
stöngla. Blómin eru fimmdeild, mörg saman í fremur litlum en þéttum
kvíslskúf á stöngulendunum, breiða lítið úr sér. Krónublöðin eru hvít
með grunnri skerðingu í endann, álíka löng og bikarblöðin, breiða ekki
úr sér. Bikarblöðin eru 4-5,5 mm á lengd, græn, hvassydd, himnurend,
kirtilhærð. Fræflar eru 5-10, ein fræva með 5 stílum. Aldinið er
gljáandi, gulllitað tannhýði sem opnast með 10 tönnum, stendur
fullþroskað langt upp fyrir bikarinn. Laufblöðin eru gagnstæð, egglaga
eða sporbaugótt, hlutfallslega breið, 1-2 sm löng og 0,5-1 sm breið,
loðin.