Mjaðjurt er allhávaxin jurt. Blómin
eru mörg saman í sveipkenndum skúfum, 6-8 mm að stærð,
fimmdeild, mjólkurhvít eða gulhvít. Krónublöðin eru naglmjó, ávöl í
endann, töluvert lengri en bikarblöðin, sem eru oddmjó, hærð að utan.
Fræflar eru allmargir. Frævur eru nokkrar saman í þyrpingu í miðju blómsins,
hver um sig með einum stíl og þykku fræni í toppinn. Blöðin eru
stakfjöðruð, bilbleðlótt, stilkuð, með axlablöðum við blaðfótinn.
Smáblöðin eru tennt, dökkgræn og gljáandi á efra borði en ljósgrágræn og
þétt- og stuttloðin á neðra borði, endasmáblaðið þrískipt. ─ Mjaðjurtin
er fremur hitakær og vex ekki villt að jafnaði nema í hlýrri sveitum
landsins, en er víðar ræktuð í görðum. Hún verður oft hávaxin og
blómstrar vel í beitarfriðuðu landi eða þar sem hrossabeit er, en myndar
aðeins smáblöð niðri í grassverðinum, þar sem beit er stöðug.