Móastör
Carex rupestris
er fremur smávaxin
stör. Hún vex í þurrum móum, einkum á þúfum eða utan í börðum. Blöðin
eru gjarnan mjög sveigð. Móastörin hefur eindregna landræna útbreiðslu á
Íslandi. Hún er því mjög algeng um landið norðaustanvert, einkum inn til
landsins. Hún kemur aðeins fyrir við innanvert Djúpið á Vestfjörðum, en
finnst varla utan þessara svæða. Móastörin er nokkuð harðgerð og finnst
því oft nokkuð hátt til fjalla. Hæstu fundarstaðir eru í Hlíðarskál við
Akureyri í 1050 m hæð, Möðruvallafjalli í Hörgárdal í 950 m og við
Bleikálukvísl á Hofsafrétti í 850 m hæð.
Móastörin hefur eitt stutt
(8-15 mm), endastætt ax með karlblómum efst, kvenblómum neðar.
Axhlífarnar eru himnukenndar, dökkbrúnar, breiðegglaga eða nær
kringlóttar. Hulstrin eru sljóþrístrend, brún, með örstuttri trjónu,
gljáandi, taugaber. Frænin eru þrjú. Blöðin eru í þéttum toppum,
áberandi beygð í allar áttir, 1-2 mm breið, snarprend,
grópuð neðan til en þrístrend í oddinn; oftast umkringd miklu af
visnuðum blaðleifum fyrri ára. Móastörin getur minnt nokkuð
á dvergstör, en þekkist frá henni bæði á
einu endastæðu axi, dvergstörin hefur fleiri, smá og þéttstæð öx. Einnig
þekkist móastörin á bogsveigðum blöðum, þau eru stutt og bein á
dvergstör.
Móastör í
Leifsstaðabrúnum í Kaupangssveit 11. júní 2006.
Móastör í hraun i við
Geiteyjarströnd í Mývatnssveit 21. júní 2004