Stinnastör
Carex bigelowii
er algengasta
þurrlendisstör landsins. Hún vex í margskonar
gróðurlendum bæði þurru, en oft einnig í votlendi á hálendinu.
Stinnastörin er algeng í mólendi, mosaþembum, hraunum, grónum áreyrum
og mikið í skriðum og á grónum rindum jafnt sem snjódældum til fjalla.
Hún er algeng frá láglendi upp í 1100 m hæð. Hæst hefur hún
fundist í 1220 m hæð á Kirkjufjalli við Hörgárdal. Erlendis er hún
útbreidd um allan norðurhjarann. Stinnastörin er skyld
mýrastör, og geta þær myndað á milli sín kynblendinga.
Dæmigerð stinnastör hefur sterkleg og stinn strá, kvenöxin allþétt saman efst
á stráinu og blöðin breið með niðurorpnum jöðrum.
Stinnastörin er allbreytileg
meðalstór stör, venjulega með tveim, sjaldnar þrem uppréttum kvenöxum og
einu karlaxi í toppinn. Axhlífar eru stuttar, snubbóttar, sjaldnar
yddar, oft nær kringlóttar, svartar með ljósri miðtaug. Hulstrið er
grænt eða nær svart, trjónulaust eða stutttrýnt, gljáalaust. Slíður
stoðblaðsins er örstutt, oftast svart. Stinnastörin hefur skriðulan
jarðstöngul með sterklegar renglur og stinn, hvassþrístrend strá. Blöðin
eru breið, 2,5-5 mm, fagurgræn eða gulgræn; blaðrendur
oftast niðurorpnar.