Vatnsnarfagras
Catabrosa aquatica
vex í bleytu, meðal
annars í járnríkum uppsprettum, skurðum, ferskvatnsflæðum og stundum í
grunnum tjörnum. Það er víða um allt land, en óvíða mikið af því.
Vatnsnarfagras getur minnt á
skriðlíngresi. Bæði eru álíka skriðul og vaxa oft í bleytu
eða vatni. Vatnsnarfagrasið hefur oftast greinilega styttri og breiðari
blöð, punturinn er dekkri og ekki rauðbrúnn, og einnig heldur breiðari
niður.
Vatnsnarfagrasið er skriðult neðan
til, stráin uppsveigð. Punturinn er keilulaga, 4-7 sm
langur, með útstæðum eða niðursveigðum greinum. Smáöxin eru oftast
einblóma. Axagnir eru snubbóttar, stuttar (1-1,5 mm), oft með óreglulega
skertum jaðri, grænar eða fjólubláar. Neðri
blómögn er með þrem upphleyptum taugum, um 2,5-3 mm löng. Blöðin eru
fremur stutt, 2-4 mm breið. Slíðurhimnur eru 2-3,5 mm, odd-dregnar.