Blóm toppasteinbrjótsins eru 10-15 mm í þvermál. Krónublöðin eru hvít eða rjómagul, um tvöfalt lengri en bikarblöðin eða meir. Fræflar eru 10, frævan klofin í toppinn. Blöðin eru í gisnum, lausþýfðum hvirfingum, niðurmjó og frambreið, klofin upp í þrjár til fimm (sjö) tennur eða flipa að framan, hvíthærð. Stöngullinn og bikarblöðin eru hærð. Toppasteinbrjótur hefur oft ekki verið aðgreindur frá þúfusteinbrjót, og því eru óljósar upplýsingar til um útbreiðslu hans í landinu.