Ljósberinn er fremur lítil, fjölær
og hárlaus jurt. Blómin eru mörg saman, leggstutt í þéttum hnapp á
stöngulendunum. Blómin eru fimmdeild, ilmsæt, krónublöðin bleikrauð,
nagllöng, alldjúpt klofin í tvo flipa í endann. Bikarinn er klukkulaga,
um 4 mm langur, bleikrauður, klofinn tæplega þriðjung niður í fimm
þríhyrnda sepa. Fræflar eru tíu, ein fræva með fimm stíla. Aldinið er
5-6 mm langt hýðisaldin sem opnast með fimm tönnum í toppinn.
Stöngullinn er meir eða minna rauður með nokkrum gagnstæðum blaðpörum,
blöðin einnig rauðmenguð, lensulaga, odddregin, 1-2,5 sm löng og 1,5-3
mm breið.