Stinnasefið er allstórvaxin og mjög gróf jurt með sérlega stinnum blöðum og blaðslíðrum. Blómin eru í þéttum hnoðum í 2(3) hæðum á stöngulenda. Blómhlífin er 6-blaða, blómhlífarblöðin dökkbrún og gljáandi, ljósari við miðtaugina, með breiðum himnufaldi og ganga fram í ávalan odd. Fræflar eru 6, ein fræva, aldinið brúnt, ámóta langt eða heldur styttra en blómhlífarblöðin. Blöðin eru rennulaga, afar stinn og í þéttum toppum, standa meir eða minna hornrétt út í allar áttir frá ljósbrúnum, breiðum blaðslíðrum. Stráið sívallt, slétt.