er ein nýjasta viðbótin við Flóru Íslands. Kristbjörn Egilsson fann hann fyrstur árið 2006. Hann vex á alllöngu svæði meðfram Hólmsá austan Reykjavíkur, innan um hávaxinn votlendisgróður, undir bökkum árinnar. Þetta er enn sem komið er eini fundarstaðurinn sem þekktur er á Íslandi. Bakkaarfinn er afar fíngerð jurt sem styður sig við hávaxnar starir og annan gróður. Blómin eru örsmá, eins og hvítar stjörnur. Bakkaarfinn líkist línarfa, en þekkist meðal annars á því að efstu háblöðin undir blóminu eru himnukennd og glær, og á krónublöðunum sem eru vel þroskuð þótt smá séu.
Blóm bakkaarfans eru legglöng, 2-4 mm í þvermál. Krónublöðin eru mjó, 1-2 mm löng, bikarblöðin töluvert lengri, oddhvöss, græn, þrítauga. Himnukennd, glær háblöð eru áberandi á blómleggjunum. Blöðin eru lensulaga eða oddbaugótt, 0,8 til 1,8 sm löng, oddhvöss, stundum með örfá randhár við blaðfótinn. Stöngullinn er grannur, ferstrendur, hárlaus nema alveg neðst.
Hér vex bakkaarfi innan um stórvaxið gras sem hann hefur stuðning af.
Til hægri á þessari mynd má sjá aldin bakkaarfans, sést betur með því að smella á myndina og stækka hana.
Hér má sjá blóm bakkaarfans í návígi. Allar myndirnar eru teknar meðfram Hólmsá austan Reykjavíkur 29. júlí 2008