Haugarfinn er einær, safarík jurt
með marggreindum, uppsveigðum eða jarðlægum, brotgjörnum, oft ein- eða
tvíhliðhærðum stönglum. Blómin eru lítil, fimmdeild, leggjuð,
blómleggurinn oft hærður. Krónublöðin eru hvít, klofin nær niður í gegn
svo þau virðast vera tíu, ívið styttri en bikarblöðin. Bikarblöðin eru
egglensulaga, 4-6 mm á lengd, græn með glærum himnufaldi. Fræflar eru
3-10 með rauðbrúnum frjóhirzlum. Ein fræva með þrískiptu fræni, verður
að allstóru hýðisaldini við þroskun. Fræin eru mörg, brún, um 1 mm í
þvermál. Laufblöðin eru gagnstæð, breiðegglaga en odddregin, 5-30 mm
löng, lin og safarík, oftast hárlaus.
Haugarfinn er auðþekktur frá öllum
öðrum íslenzkum jurtum. Hann sýnir einkum breytileika gagnvart áburði,
verður feikna kröftugur og bústinn þar sem vel er borið á, en ákaflega
rýr og gulgrænn þar sem næringarefni eru af skornum skammti.
Haugarfi á Arnarhóli í Kaupangssveit árið 1963.
Blómstrandi haugarfi í Reykjavík 1982.
Nærmynd af blómi haugarfans á Arnarhóli 25. júlí 2011.