Blóm kattarjurtar eru örsmá, um eða
innan við 2 mm og standa í stuttum klasa. Krónublöðin eru gul, spaðalaga
eða tungulaga, um 1,5 mm á lengd, afar naglmjó, nánast eins og þau sitji
á vængjuðum stilk. Bikarblöðin eru heldur styttri, bleikleit eða
grænfjólublá, himnurend. Fræflarnir hafa gular frjóhirzlur sem eru
aðeins 0,2-0,3 mm að stærð. Ein fræva er í miðju blóminu, hún verður að
bjúglaga, 5-12 mm löngum og 2-3 mm breiðum skálp með allmörgum gulbrúnum
eða rauðbrúnum fræjum sem eru allt að 1 mm í þvermál. Leggjaðir
skálparnir sitja oft margir saman í löngum klasa á stöngulendum
þroskaðra plantna. Laufblöðin eru flest í stofnhvirfingu, 2-6 sm á
lengd, afar breytileg að gerð, venjulega fjaðurflipótt eða fjaðurskipt,
endableðillinn stærstur, smáblöðin óreglulega sepótt eða gróftennt.
Venjulega er kattarjurtin smávaxin, en getur myndað allstórar flækjur og
orðið 30 sm á lengd eða meira.