Gljástör
Carex pallescens
er mjög sjaldgæf
stör á Íslandi, aðeins fundin á tveim stöðum,
í brekku fyrir ofan Hvamm undir Eyjafjöllum, og á Ytri-Hrafnabjörgum í
Hörðudal. Í Hvammi er mjög mikið af þessari stör, hún vex þar á stóru
svæði um alla brekkuna ofan við bæinn. Á Ytri-Hrafnabjörgum er miklu
minna af henni, hún var þar á tveim stöðum, og þakti á öðrum staðnum um
100 m2 þegar Ingimar
Óskarsson skoðaði hana þar árið 1967. Ég skoðaði fundarstaðinn árið
2003, en sá hvergi störina, og gæti því verið að hún væri horfin af
þessum stað.
Gljástörin er allhávaxin með 2-3
græn, sívöl, leggjuð kvenöx og einu karlaxi í toppinn. Axhlífarnar eru
ljósgulbrúnar eða grænleitar, með dekkri miðtaug sem gengur út í stuttan
odd. Hulstrin eru græn, aflöng, snubbótt í endann, tauga- og trjónulaus.
Neðsta stoðblað blómskipun-arinnar er blaðkennt og nær langt upp fyrir
öxin. Stráið er hvass-þrístrent, neðstu blaðslíðrin hærð, blöðin flöt,
2-4 mm breið, hærð á neðra borði.