Einir
Juniperus communis
er eina barrtréð
sem vex villt á Íslandi. Hann hefur beittar nálar og er ætíð fremur
lágvaxinn, oft jarðlægur runni. Blómin eru einkynja í
sérbýli, þ.e. aðeins annað kynið finnst á hverri plöntu. Á karlplöntunum
standa karlblómin mörg saman í örsmáum (2-4 mm) könglum í blaðöxlunum.
Aldin kvenjurtanna eru í fyrstu grænir berkönglar, sem verða síðar
bláir, og nefnast þau einiber. Einiberin eru gerð af þrem efstu
blöðum köngulsins sem túttna mjög út, en hin neðri eru dvergvaxin og
mynda vörtu neðan á einiberinu. Það tekur um ár frá því
að frævun verður þar til berin eru vaxin og eru þau þá fyrst græn á öðru
ári, en ná fullum þroska á þriðja ári og verða þá dökkblá.
Einirinn er fremur algengur um nær allt landið, þó er lítið af honum í
Húnavatnssýslum, Rangárvallasýslu og í Skaftafellssýslu
vestanverðri. Útbreiðsla hans er því nokkuð blettótt, vantar sums staðar
en annars staðar algengur.
Einirinn er runni með trékenndan,
oftast jarðlægan, brúnleitan stofn. Blöðin eru sígræn og nállaga;
nálarnar eru 8-16 mm á lengd, oddhvassar, með djúpri gróp að ofan en
kili að neðan, grópin er með hvítri rák eftir endilöngu.
Köngulblöðin eru móleit, þrístrend eða hjartalaga innan um
frjóhirzlurnar. Á fullþroskuðum berjunum má auðveldlega greina þríarma
ör að framanverðu, og eru það samskeyti hinna þriggja ummynduðu
fræblaða. Þegar bezt lætur þroskast þrjú fræ í berinu, en oft ná ekki
nema eitt eða tvö þeirra þroska.
Hér sjáum við kvenplöntu einisins með
berköngla í Þórsmörk þann 19. júní árið 1982.
Hér sjást karlkönglar einisins hlaðnir
frjókornum. Myndin tekin í Þórsmörk 26. júní árið 1988.
Hér sést að lokum einn nokkuð stór einirunni
við Helguhól í Kelduhverfi 15. júlí árið 2000