Alaskaösp
Populus trichocarpa
er innflutt
trjátegund, sem kom fyrst til landsins um miðja síðustu öld. Hún er
ákaflega hraðvaxta og er víða á landinu orðin töluvert yfir 20 metrar á
hæð og getur myndað feiknar svera boli. Strax um 1990 varð þess vart að
hún er farin að sá sér frjálslega, einkum fær hún set á röskuðum svæðum,
t.d. meðfram nýgerðum vegum og víðar. Hún myndar einnig mikið af
rótarskotum, sem jafnan koma upp í nokkurra metra fjarlægð frá
móðurplöntunni. Fræin eru hins vegar svo sviflétt að þau svífa langar
leiðir og sáðplöntur koma oft upp í nokkur hundruð metra eða kílómetra
fjarlægð frá móðurplöntunum. Ný kynslóð af sjálfsánum öspum er sums
staðar búnar að ná fullri hæð. Þetta tré mun því fjölga sér og
dreifast í íslenzkri náttúru á komandi árum. Öspin blómstrar rétt í
byrjun laufgunar, í apríl eða maí eftir árferði.
Myndin af þrískiptum bol
alaskaaspar er tekin á Arnarhóli í Kaupangs-sveit 1. maí 2007.
Börkur alaskaaspar er grábrúnn, yngri sprotar rauðbrúnir, hárlausir, og
ársprotar eru grænleitir. Blöðin eru fagurgræn, gljáandi á efra borði en
lítið eitt ljósari neðan, hárlaus, egglaga og odddregin eða hjartalaga,
heilrend, 8-18 sm löng en 5-12 sm breið, oft límkennd og sitja á
gulgrænum eða bleikleitum, 2-5 sm löngum stilk. Karlblómin eru í 5-8 sm
löngum reklum, frjóhirzlur í fyrstu rauðar en síðar gulbrúnar til
fjólubláar. Kvenblómin eru í 10-20 sm löngum reklum sem oft losna af
eftir fræfall. Fræin örsmá, svífa langar leiðir á dúnmjúkum
ullar-hnoðrum. Kortið hér að neðan sýnir staði þar sem alaskaösp
er farin að sá sér út.
Myndin af sprota
alaskaaspar er tekin í Fífilgerði í Eyjafirði 21. júní 2005,
Myndir af karlreklum
alaskaaspar eru teknar á Arnarhóli í Kaupangssveit 1. maí 2007
Kvenblóm í návígi,
tekið á sama stað 15. maí 2009.
Fullþroskaðir
kvenreklar með fræjum og fræull, tekið á Arnarhóli 16. júlí 2009.