Blóm lindadúnurtar eru rauð, fjórdeild, 8-10 mm á lengd. Bikarinn er helmingi styttri, rauður eða grænleitur. Fræflar eru 8. Ein fjórblaða, hárlaus fræva er staðsett undir blómhlífinni, verður 3-7 sm á lengd og klofnar í fjórar ræmur við þroskun. Fræin hafa hvít svifhár. Blöðin eru gagnstæð, egglaga, dregin fram í odd, tennt, hárlaus, 2-3,5 sm á lengd og 1-2 sm á breidd. Stöngullinn er strendur, með tveim hárrákum að endilöngu. Langar jarðlægar renglur með gulleitum lágblöðum vaxa út frá stofni jarðstöngulsins. Þær mynda oft endastæðan laukknapp seint á haustin.
Hér sjáum við lindadúnurt við Sævarland í Þistilfirði 6. ágúst 1981.
Blóm lindadúnurtar í nærsýn í júní 2004 við Garðsárgil í Eyjafirði. Svona opna blómin sig aðeins í sólskini.